Síðastliðinn þriðjudag eða þann 26. maí kom til okkar 18 manna hópur í sólarhringsdvöl. Hópurinn samanstóð af 12 háskólanemum frá Alabama í Bandaríkjunum ásamt tveimur kennurum og tveimur fararstjórum. Til að byrja með sýndum við hópnum fjárhúsin og sögðum frá því starfi sem þar fer fram. Hópurinn fór svo með dótið sitt og inní eina sauðfjárstíuna sem búið var að breyta í svefnaðstöðu, með miklu magni af hálmi sem við breiddum yfir segldúk. Heppnaðist það mjög vel og að þeirra sögn sváfu þau eins og “baby sheep” !! Í kvöldmatinn var gúllassúpa og brauð og svo blómkálssúpa fyrir grænmetisæturnar í hópnum.
Eftir matinn var mikil sýning fyrir hópinn þar sem Brúnhildur bar ein og óstudd svörtum hrút. Var það atvik myndað í bak og fyrir ásamt fyrstu skefum og mjólkursopa lambsins. Þessi atburður var mikil upplifun fyrir allan hópinn þar sem lang flestir höfðu aldrei séð fæðingu áður. Rétt áður en lambið kom í heiminn kom Einar bóndi ásamt Pétri Óla vinnumanni ríðandi með brúnskjóttu merina Þotu ásamt 8 klukkustunda gömlu brúnskjóttu hestfolaldi.
Vakti það þvílíka lukku að sjá svona lítið og fallegt folald og ekki skemmir liturinn fyrir! Fyrir svefninn fór megnið af hópnum og rölti um Kotið og skoðaði landið og búfénaðinn sem fyrir augu bar. Þegar inn var komið var hafist handa við að skrifa í dagbækur og skrifa glósur fyrir daginn því heimsóknin þeirra til okkar er hluti af þriggja vikna námsferð þeirra um Ísland. Yfir nóttina skiptum ég og Þorsteinn vöktunum með okkur og gaman var hvað krakkarnir voru áhugasamir og spurðu mikið um allt á milli himins og jarðar um kindurnar og lífið í sveitinni.
Í morgunmat var ekta íslenskur hafragrautur með slátri, ásamt rúgbrauði og flatbrauði með heimagerðri kæfu og köldum bjúgum.
Viljum við þakka Páli Ásgeiri og hópnum kærlega fyrir komuna.
Frábært að gekk vel með innrásina frá US. Svo er bara að halda áfram á sömu braut.. það gerir þetta enginn betur en þið
Jói.